Sunday, June 29, 2014

Sveppasúpan góða

Jæja þá er helginni að ljúka og eftir skemmtilegt matarboð í gærkveldi með góðum vinum okkar sem leiddi til þess að morgunlúrinn dróst eitthvað fram á daginn þá sest ég nú loks niður við tölvuna og hendi inn einu bloggi.  Eins og ég sagði þá eyddum við gærkvöldinu með matarklúbbnum okkar sem samanstendur af 3 pörum úr öllum áttum en þó tengjumst við innbyrðis á mismunandi hátt sem er bara skemmtilegt. Maturinn var æðislegur, fiskur, humar, sjúklega gott meðlæti og rabbarbarapæ í eftirrétt og vel veitt af öllu, enda þau hjónin ekki þekkt fyrir annað. Það sem mér þótti þó best var að bróðurpartur kvöldsins fór í að dást að afrekum barnanna okkar, en við skiptumst á að sýna frá uppátækjum þeirra sem ratað hafa á youtube, já tæknin maður !! Þar mátti meðal annars finna tónlistarmyndbönd, hryllingsstuttmyndir og downhill hjólaferðir svo eitthvað sé nefnt. Svona á lífið að vera og ég mun seint hætta að monta mig af þessum krökkum okkar sem eru hreint út sagt frábær og hæfileikarík. Þar hafið þið það.  En að öðru, ég skellti í sveppasúpu fyrr í vikunni sem var alveg ljómandi fín og þar sem mér hefur alltaf fundist ofursvalt að bera súpur fram í brauði líkt og á Svarta kaffi þá þrjóskaðist ég við og bakaði 3 súpubrauð úr uppskrift sem ég nota oft í "Hlöllabátsbrauðin" góðu. Það má auðvitað baka minni bollur og bera súpuna fram í súpuskál !! en mér fannst hitt eitthvað svo töff. Mæli með að þið prufið þessa súpu, meira að segja hann Nói  minn atvinnugikkur sagði "tveir þumlar upp !!"Sveppasúpa með timian í brauðbollu:
 
 200 g sveppir
 smjörklípa
 4 vorlaukar
 1 hvítlaukur(solo) eða 2 venjuleg rif
 1 sveppateningur
 1 L vatn
 100 g sveppaostur
 250 ml rjómi t.d. laktósafrír
 1 tsk timian krydd, má nota meira og líka nota ferskt
 2 msk chiamjöl( má líka nota xanthan gum)
 pipar og salt
 
Aðferð:
Steikið sveppi upp úr smjöri, bætið við laukunum og látið brúnast vel. Hellið þá vatninu út á og kryddið. Sveppaosturinn og rjóminn fara síðast út í og látið malla í 10-15 mín.
 
 
Brauðið er sama uppskrift og af Hlöllabátunum en hér með 1 sveppakraftstening í vatninu:
 
200 g ljóst möndlumjöl eða malaðar hýðislausar möndlur
 5 msk Physillium HUSK DUFT, ath verður að vera duftið í baukunum frá NOW
 2 tsk vínsteinslyftiduft
 3 eggjahvítur eða 1 dl
 250 ml sjóðandi vatn með 1 sveppakraftstening
 2 msk eplaedik
 1/2 tsk sjávarsalt
 
Aðferð:
 Forhitið ofn í 180°C og notið blástur.
 Blandið þurrefnum saman í matvinnsluvél, bætið eggjahvítu saman við og hrærið vel, sjóðandi sveppasoðið
 fer svo út í síðast og hrært vel. Látið deigið standa í skálinni í 5-10 mín. Mótið þá bollur
 (gott að nota einnota hanska eða setja pínu olíu í lófana) Mótið ca 3 stór súpubrauð úr deiginu og setjið á bökunarplötu,
 líka hægt að móta fleiri litlar bollur og borða blessaða súpuna úr skál, hitt var bara svo töff.
 Bakið í 50 mín með blæstri neðarlega í ofni.
 Kælið, rífið innan úr brauðinu og berið súpuna fram með rjómadoppu og fersku timian
 
 
 
 
 
 
 

No comments:

Post a Comment