Tuesday, July 8, 2014

Eggjafestival

 Jæja kæru vinir, nú er ég búin að liggja í lungnabólgu eftir Tyrklandsferðina góðu, æfa frekar lítið, ferðast til Siglufjarðar með stórfjölskyldunni og freistast í allskonar vitleysu. Þar má til dæmis nefna heimagerðu skonsurnar hennar Tótu mágkonu, döðlugott sem einhverra hluta vegna var útbúið rétt fyrir ferðina og ýmislegt annað sem hnaut um varir mínar og er ekki það besta fyrir kroppinn. Því er ekki annað hægt en að rífa sig upp á rassinum og snúa við blaðinu áður en út í óefni er komið.


Ég las um eggjaföstu í bílnum á leið heim sem er talin vera ágætis leið til að skjótast hratt aftur í "ketó" ástand og ákvað ég að prófa þetta bara til að losna við sykurpúkann sem flutti inn um helgina. Mér finnst það reyndar frekar fyndið að akkurat núna þegar ég dembi mér í þetta, þá ákveða hænurnar mínar að liggja sem fastast á eggjunum og meira að segja komnir 7 hressir hænuungar á efri hæðina hjá mér. Þar tísta þeir ótt og títt í öruggu skjóli frá villkisunum sem búa undir hænsnakofanum og líður bara nokkuð vel í hitanum með fullar skálar af fóðri og er dekrað við þá á allan hátt.
Ég verð því víst að kaupa eggin og reyna að vera frumleg næstu daga í eggjaréttum svo "eggjafestivalið" geti hafist. Ég er reyndar búin með einn dag og hann gekk mjög vel, engin svengdartilfinning til að tala um en ég fékk mér bulletproof kaffi í morgunmat, harðsoðin egg með mæjó í hádeginu, eggjapönnsur um miðjan daginn, ommilettu í kvöldmat og eggjacreme brulee í desert.  Þetta kanna að hljóma rosalega illa fyrir einhverja, en ég er nú bara nokkuð heppin með að finnast egg þrælgóð svo þetta hentar mér vel, ég er líka mjög upptekin þessa daga við vinnu enda Hrafnagilshátíðin norður á Akureyri framundan og því ekki mikill tími aflögu fyrir eldamennsku og snúllerí. Hér eru málaðar perlur fram á rauða nótt, klippt niður í keðjur og hálsmen og umbúðir brotnar í óða önn. Það er hægt að lesa sig til um þessa eggjaföstu hér á þessari slóð http://ketogenicwoman.com/egg-fast-diet/ og svo má aðlaga þessa föstu eftir því sem hentar.

Aðalmálið er að hafa egg sem aðalprótíngjafa, 1 msk af smjöri eða annarri fitu á hvert egg og svo má fá sér eitthvað af osti fyrir þá sem það vilja yfir daginn, drekka helling af vatni, kaffi og kókosolíu.
Ég stefni allavega á 3 daga til að byrja með en 5 daga ef ég mér líður rosalega vel á þessu :) svo er það bara að taka upp hefðbundið LKL fæði þar á eftir og koma sér á beinu brautina. Ég setti með hér neðar uppskrift af svona eggjabúðing sem er aðlagaður eftir erlendri fyrirmynd og smakkaðist bara nokkuð vel."Karamellu creme brulee" 4 skammtar
2 egg
60 g hreinn rjómaostur
220 ml vatn
1 1/2 msk af sætuefni, Sukrin eða Sukrin gold.
1/2 tsk vanilludropar
10 dropar karamellustevía

Aðferð:
Þeytið öllu saman með töfrasprota, deilið í 4 skálar sem þola ofn og bakið í ofni í eldföstu móti með vatni (ekki vatnið í uppskriftinni heldur aukalega úr krananum þar til fatið er 2/3 fullt) í 170°C hita í 30 mín. Þetta er svo tekið úr ofninum, látið kólna og ef þið viljið gera vel við ykkur þá er örlitlum sukrin gold sykri stráð yfir hvern búðing og brennt með þar tilgerðum creme brulle hitara.
 


No comments:

Post a Comment