Wednesday, July 16, 2014

Eggjapartýi heldur áfram

Jæja, ef einhver heldur því fram að kolvetni séu nauðsynleg fyrir virka heilastarfssemi þá vil ég hitta viðkomandi í kaffi og ræða það aðeins, því síðustu daga eða vikur hef ég verið á mjööög kolvetnasnauðu fæði og hef sjaldan verið eins virk (ofvirk) segjir maðurinn minn reyndar. Hugmyndirnar spýtast úr kollinum, og vinnugleðin er í hámarki. Ég útbjó til dæmis heila vörulínu af nýjum hárböndum fyrir www.kristadesign.is á 3 dögum, tók myndir, vann þær, gerði umbúðir klárar og náði að gera ágætan lager í ofanálag.  Hvort það sé orka úr eggjunum sjálfum eða hreinlega bara fjarvera sykursins og "verri" kolvetna þá er það eitthvað sem veldur. Mér líður afar vel á föstunni, tek svona 4-5 daga í beit og hvíli svo á milli með hefðubundnu "Ketó" fæði. Takmarka öll kolvetni eins og hægt er en leyfi mér samt brokkolí og gott grænmeti með helgarsteikinni.

Ég ákvað í morgun að útbúa mér þessa ljúffengu beikonostasnúða til að eiga yfir daginn en það er afar fljótlegt að skella í þessa uppskrift, engin lyfting og vesen eins og í hefðbundunum brauðbakstri.

Þetta er grunnurinn af Oopsie brauðum og því margir sem kannast við aðferðina:
Beikon ostasnúðar
120 g rjómaostur hreinn
4 egg aðskilin
1/2 tsk vínsteinslyftiduft
1 msk HUSK
6-8 dropar bragðlaus Via Health stevía
nokkur korn salt
 
Aðferð:
Þeytið eggjahvítur sér með vínsteinslyftiduftinu. Þeytið rjómaost og eggjarauður í skál og bætið HUSK salti og stevíu út í. Blandið helming af eggjahvítunum kröftuglega saman við rauðurnar og svo veltið þið restinni af hvítunum saman við með sleif.  Hellið deiginu á smjörpappírsklædda bökunarplötu og bakið í 10 mín á 170°C heitum ofni með blæstri.
 
Fylling:
50 g camenbertsmurostur
50 g beikonsmurostur
 
Takið deigið út þegar hægt er að snerta á því með fingrinum og dreifið beikon og camenbertostinum yfir í litlum doppum. Rúllið pappírnum aðeins upp svo hægt sér að rúlla deiginu upp í rúllu, er pínu heitt svo farið varlega, notið endilega pappírinn til að hjálpa til. Skerið svo rúlluna niður í snúða og dreifið rifnum osti yfir hvert stk. Bakið aftur undir grilli í 3-5 mín þar til osturinn verður gylltur og fínn. Þetta er saðsamt og ljúffengt og ég tími varla að setja þetta á borðið hjá unglingunum :)

No comments:

Post a Comment