Friday, August 22, 2014

"Pönnupizza"

Föstudagur enn og aftur og jú margir sem halda sig við hefðina að hafa pizzur í matinn á föstudagskvöldum.  Hér er uppskrift af pizzubotni sem er svo kjánalega einföld að það er bara vandræðalegt. Ef þú vilt alveg sleppa við mjölið, hvort sem það er möndlumjöl eða kókoshveiti þá gæti þetta verið góður botn fyrir þig. Hráefnum er einfaldlega þeytt saman og hellt í hringlaga form, silikonform er best, svo baka í 10-15 mín. Síðan má bara setja hvaða álegg á sem fólk vill, baka stutt í viðbót þar til osturinn er gylltur. Hella svo ísköldu vatni í glas með dash af eplaediki og klaka og plathvítvínið er klárt með pizzunni :) Eigið frábæra helgi, hlauparar og menningarvitar.
"Pönnupizza"
1 góð msk beikonsmurostur, má nota aðra osta, t.d. pizzusmurost
1 góð msk kotasæla, eða meira af smurosti
1 msk HUSK í pokunum
2 egg
1-2 tsk pizzukrydd, oregano, hvítlauksduft, allt eftir smekk
 
Aðferð:
Þeytið saman með töfrasprota eða písk og hellið blöndunni í form,
mér finnst best að nota silikon tertuformið mitt. Fullkomin 9"  pizza ;)
 
Bakið í 200°C heitum ofni í ca 10-15 mín eða þarf til pizzubotninn fer að bubbla aðeins og lyfta sér.
Takið botninn úr ofni og smyrjið pizzusósu yfir, ég nota nú bara 1-2 msk af Hunts pizzusósu sem er sykurlaus skv umbúðunum.
Dreifið áleggi að eigin vali yfir, mitt uppáhald er núna skinka, og 1 dl af niðurskorinni rauðri papriku.
Kryddið meira með pizzukryddi og setjið góða lúku af rifnum osti yfir. Bakið aftur í ofninum í 5-10 mín og þá er þetta tilbúið. Mjög bragðgóð pizza og algjörlega hveiti og glútenlaus.
 
Ef þið viljið extra þykkan botn þá mætti tvöfalda uppskriftina og baka aðeins lengur á lægri hita.


 


 
 

No comments:

Post a Comment