Monday, August 25, 2014

Rif um rif frá rifjum...

Jebb, nýr veitingastaður opnar, mín prófar. Verður svo svekkt út í sykurmagnið sem er búið að bæta í nánast allt að hún fer heim og snýr öllu á hvolf við að útfæra réttinn á annan hátt. Örugglega nýtt "syndrome"sem ég hef komið á kortið. Þetta á vel við í þessu bloggi en eftir að ég heimsótti Dirty burgers and ribs þá hef ég hugsað mikið um rifin sem við keyptum okkur saman hjónin, deildum sko skammti bara til að vita hvað það var sem var þess virði að bíða í röðum eftir. Jú auðvitað var þetta rosalega gott :) Kjötið datt af beinunum og bragðið æði. Ekki beint matur samt til að borða í bílnum í sparikjól en ég komst þó sæmilega smart heim.  Nokkrir dagar liðu og þá byrjuðu einkennin. Hvar ætli maður fái svona fersk rif, ekki forelduð, söltuð eða legin í sykursósu ? Hvernig er hægt að gera svona góða barbíkjú sósu án sykurs. Eftir smá tékk og hringingar þá datt ég inn á rifjapakka í Fjarðarkaupum og keypti 2 bakka. Merkilega ódýr matur meira að segja. Svo var það bara að snúa ölllu á hvolf. Matreiðslan gekk býsna vel, og þótt eldunartíminn væri pínu langur þá voru blessuð rifin alveg þess virði. Ég væri til að prófa næst "baby back rib"en það þarf væntanlega að panta þau í kjötborðinu með góðum fyrirvara. Þessi verða samt pottþétt elduð aftur og sósan var ótrúlega góð. Hún er ekki alveg eins og sósan sem ég setti hér inn á bloggið fyrir nokkru og ég er alveg á því að þessi sé betri.

 
Rifjaveisla
2 kg af ferskum rifjum, fékk mín í Fjarðarkaup
gróft sjávarsalt 1-2 tsk
1 msk paprikukrydd
1 msk hvítlauksduft
 
Blandið þessum kryddum saman í skál. Setjið álpappír á 2 bökunarplötur og dreifið rifjunum á þær. Dreifið kryddinu yfir og setjið í 200°C heitan ofn með grilli. Ágætt að brúna þau í 15 mín á háum hita. Á meðan er gott að útbúa sósuna.
 
Barb-q sósan:
1 dós Hunts tómatar
1 msk tómatpaste
2 msk eplaedik
3 msk Sukrin Gold
1 msk Worchestersósa
1 1/2 tsk hvítlauksduft
1 tsk laukduft
1 tsk salt
1 msk tabasco sósa
1/2 tsk chilliduft (valfrjálst)
2 msk smjör
Ef þið eigið "liquid smoke" þá mætti setja 1 1/2 msk af því, fæst í KOSTI.
 
Aðferð:
Setjið allt í pott og hitið þar til fer að sjóða, takið þá pottinn af hellunni og maukið allt saman með töfrasprota (ef þið notið heila tómata í dós).
Takið nú rifin úr ofninum og gott er að nota steikarpott með loki t.d. þessa svörtu gömlu góðu til að ná góðri eldun á rifjunum.
Færið rifin með töng yfir í pottinn og hellið dálítilli sósu yfir , geymið 1-2 dl af sósu fyrir lokaumferð en hellið sósunni vel á milli rifjanna áður en þau fara í ofninn.
Hafið ofninn á 150°c og eldið í ca 4 tíma eða þar til beinin losna frá kjötinu. Þegar rifin eru passlega elduð má taka þau upp úr pottinum og bæta við aukasósunni áður en þau eru borin fram :) 
 
Snilld með hrásalati og fersku engifergosi.
 
Engifergos:
300 ml vatn
100 gr ferskur engifer
1 dl erythritol
20 dropar stevia
3 msk lime safi
 
Hitið allt í potti þar til engiferinn er orðinn mjúkur, sigtið sýropið frá og kælið.
Hellið svo sódavatni í glas og ca 1 dl af engiferssýrópi út í. Bætið við klökum og njótið. 

No comments:

Post a Comment