Tuesday, August 19, 2014

Tótunammi

Hún Þórhildur Guðmundsdóttir (Tóta) mágkona mín er nú meira krúttið, hún bölvar mér örugglega duglega núna yfir þessari samlíkingu en mér er alveg sama. Hún hefur heillað mig frá fyrstu kynnum og gerir enn :) oooooo. Jæja, verandi eðal landsbyggðatútta, alla leið frá Þórshöfn, Langanesi takk, þá er hún þessi týpa sem alist hefur upp við ekta heimilismat, steiktan, soðinn, reyktan og bara þetta venjulega eðalfæði sem margir þekkja.  Þegar ég fór eitthvað að reyna að bjóða henni fyrst upp á hveitilaust og sykurlaust dót þá var nú ekkert agalega bjart yfir gömlu. Hún lét sig þó hafa það enda fúlsar hún ekki við mat að eigin sögn. Það er nú skemmst frá því að segja að eggið er farið að kenna hænunni, Tóta er nefninlega farin að fikta við sykurlausa matargerð og ég er svo stolt af henni !! Það þarf ekkert að útlista kosti þess að sleppa sykrinum og ef valin eru góð sætuefni þá er alveg hægt að lifa án hans. Þórhildur gaf mér þessa fínu hugmynd af millimáli ef púkinn færi að banka og úr varð þetta dýrindis kökudeig (ameríska: cookie dough). Það má nota hvaða sætu sem er í þetta, allt eftir smekk. Nú svo má skutla einu eggi út í deigið og baka en kökurnar urðu ekkert rosalega smart kannski þótt þær væru góðar. Mæli bara með að borða deigið hrátt sem er í besta lagi ef eggið er fjarverandi. Verði ykkur að góðu og takk Tóta þú ert nú meira krúttið !!
 Tilbúið kökudeig
Niðurbrytjaðir heimagerðir súkkulaðibitar


"Kökudeig"
 
Súkkulaði í deigið:
50 g kakósmjör ( fæst í Bónus í Sollurekkanum)
50 g kókosolía
20 g kakó
30 g fínmöluð gervisæta
5 dr Stevía án bragðefna, t.d. Via Health
 
Aðferð:
Bræðið allt saman í potti á mjög lágum hita og hellið í konfektmót.
Frystið í 15 mín og þá er hægt að skera í bita
 
Kökudeigið:
100 g smjör ( mjúkt )
80 g sæta, má vera Sukrin Gold eða önnur góð sæta
2 tsk vanilludropar
20 g kókoshveiti
2 msk möndlumjólk
ögn af salti
Niðurbrytjað súkkulaði, 1/2 uppskrift hér að ofan dugar, en einnig má nota tilbúið sykurlaust súkkulaði ( Stevía,Valor)
 
Aðferð:
Hrærið allt vel saman nema súkkulaðið, þegar smjörið hefur blandast vel saman við annað hráefni þá er niðurbrytjuðu súkkulaðinu bætt saman við.  Þetta er þá tilbúið til að narta í og geymist vel í kæli.
Það er hægt að skella 1 eggi út í blönduna og 1/2 tsk Xanthan Gum og baka smákökur en er ekki deigið alltaf best hrátt ;)
 

No comments:

Post a Comment