Friday, September 19, 2014

Helgarnammi og kósýheit

Þessa dagana eru fréttaveitur og matarblogg yfirfull af heilsufróðleik, heilsuuppskriftum, sykurgreinum, sætuefnagreinum og þar fram eftir götunum. Deilt er um ágæti vissra sætuefna og er ég vissulega sammála mörgu í þeim málum. Það er stór munur á vörum sem í boði eru og gæðin misgóð. Ég hef reynt að nota eingöngu erythritol og stevíu í bakstur og matargerð en í sumum súkkulaðiplötum má þó finna malitol og svo er sucralose í ákveðnum sýrópum sem nota má í kaffibollann. Allt er auðvitað gott í hófi en í mínu tilfelli þá er erfitt að hætta í súkkulaðinu eftir 2-3 mola. Ég er búin að rekast á nokkrar snickersuppskriftir upp á síðkastið sem kalla flestar á 100-200 g af dökku súkkulaði og þar sem ég þekki mig of vel þá sá ég fram á að klára allt súkkulaðið auk þess að éta upp allt hnetugumsið í leiðinni með tilheyrandi magaverk og hitaeininga"óverload". Skárri kosturinn var að gera sjálf súkkulaðið enda hef ég ekki tíma til að húða hvern bita og svo finnst mér nú algjör glæpur að fara að bræða niður fallega steyptar súkkulaðiplötur. Þetta varð því einhversskonar samsuða úr uppskriftum héðan og þaðan en súkkulaðið hef ég oft gert hér á blogginu. Ég bætti við möndlum, minnkaði sum hlutföll og útkoman var mjög fín. Prófið þið bara, það finnst varla munur á þessu og venjulegu súkkulaði úr búðinni, tekur örstutta stund að gera og fyrr en varir ertu komin með fullt box af gotteríi sem hægt er að njóta með nokkuð hreinni samvisku.


Helgarnammi
 
150 g gróft hnetusmjör ( Sollu er mjög gott)
70 g salthnetur
70 g möndlur með hýði
1 msk Via Health fínmöluð sæta
10 dr stevía
35 g smjör
1 tsk vanilludropar
 
Aðferð:
Grófmalið hnetur og möndlur. Hitið smjör og hnetusmjör, bætið sætuefnum út í leysið vel upp. Bætið hnetum saman við og hellið svo blöndunni í smjörpappírsklætt form.
Frystið í 15 mín ca og búið til súkkulaðið á meðan.
 
Súkkulaði:
50 g kakósmjör
50 g kókosolía
30 g Via Health fínmöluð sæta
10 dr stevía ( karamellu er góð )
20 g kakó
saltögn
1 tsk vanilludropar
 
Aðferð:
Hitið á lágum hita smjörið og olíuna. Bætið þurrefnum saman við og saltið. Sækið hnetunammið úr frystinum og hellið súkkulaðinu yfir. Frystið aftur í 15-20 mín.
Þetta má svo skera í hæfilega bita og njóta með hressandi kaffibolla.

1 comment:

  1. Þetta er klikkað gott! Kv. Sonja

    ReplyDelete