Tuesday, September 23, 2014

Kjúklingasamsuða í anda bloggvinkonu

Ég ætla núna að viðurkenna eitt fyrir ykkur sem ég get ekki þagað yfir lengur... ég er með "stelpuskot"..... í henni Guðrúnu Veigu bloggvinkonu minni. Ég les skrif hennar upp til agna og það gleður mig alltaf jafnmikið því fyndnari penna hef ég sjaldan komist í tæri við. Við tvær gætum ekki verið ólíkari þegar að matargerð kemur en ég held að hún lifi á poppkorni, hnetusmjöri og óreó kökum. Það breytir mig þó engu enda fagna ég fjölbreytileikanum, sykurlausum eða ekki. Hún GV "lenti" í því fyrir stuttu að elda eitthvað annað en poppkorn og úr varð mjög girnilegur kjúklingaréttur sem ég ákvað að herma dálítið eftir enda kominn tími á að tæma úr grænmetisskúffunni. Ég átti ekki alveg allt sem var í réttinum hennar og breytti því sósunni örlítið enda ekki mikið fyrir að kaupa tilbúnar krukkusósur. Þetta varð hin skemmtilegasta kjúllasamsuða sem verður eflaust gerð aftur. Takk Veiga snillingur og ég mæli með að allir lesi bloggið hennar, það gefur lífinu lit.
Kjúklingasamsuða:
 
 1 poki kjúklingabringur frá Rose
1 tsk hvítlauksmauk eða 1-2 geirar hvítlaukur
3 msk smurostur að eigin vali, t.d. camenbert og beikon (ég notaði bæði)
1 lítil paprika
3-4 cm blaðlaukur
3-4 sveppir
1 tómatur
1 msk tómatpúrra
1 dl rjómi
2 msk fetostur, má sleppa
rifinn ostur 2-3 msk
 
Aðferð:
Steikið kjúklinginn í bitum upp úr olíu og hvítlauk.
Kryddið með góðu kryddi ég notaði chipotle krydd úr Kosti.
Setjið bitana í eldfast mót og geymið vökvann í pönnunni.  Bætið tómatpúrru út í og smurostinum, þynnið með smá rjóma og vatni ef þörf krefur.
Hellið sósunni svo yfir kjúklinginn og bætið niðurskornu grænmeti yfir. Bætið fetaostinum saman við og slettu af olíu. Að lokum er rifnum osti dreift yfir og allt hitað í ofni þar til osturinn er orðinn gylltur og girnilegur. Berið fram með þessu, t.d. ferskt grænmeti og blómkálsgrjón.

 

No comments:

Post a Comment