Monday, September 29, 2014

Sunnudagsbíltúr og ís með dýfu

Það sem við eigum nú fallegt land við frónverjarnir !! Ég viðurkenni að sem barn og unglingur þá fannst mér nú ekki það skemmtilegasta að þeytast um landið og skoða fjöll, fossa og kirkjur (minnir allavega að það hafi verið það eina sem skoðað var). Með aldrinum hefur maður nú eitthvað þroskast og kann betur að meta náttúruna og alla þessa fegurð sem bíður manns bara rétt fyrir utan bæjarmörkin. Við fjölskyldan skutumst nefninlega í sunnudagsbíltúr núna um helgina, enda búið að spá smá glætu og því tilvalið að taka sér frí frá vinnu og draga börnin út úr Mindcraft tölvuveröldinni og skoða þessa "alvöru" fyrir utan veggi heimilisins. Leiðin lá austur á Þingvelli í haustlitaferð, með viðkomu á nokkrum velvöldum stöðum eins og t.d. Efsta Dal þar sem hægt er að smakka ís í íshlöðunni, skoða kálfa og beljur og þessvegna fá sér að borða á hlöðuloftinu. Við stefndum hinsvegar á tómatsúpuna sem við höfðum heyrt af í Friðheimum, Reykholti enda fátt skemmtilegra en að fara í heimsókn til fólks með metnað og drif á öllum sem ég tel þurfa í svona ferðamannarekstri. Við fengum frábæra þjónustu hjá þeim tómatabændum sem buðu upp á girnilega súpu, nýbakað brauð og gúrkumeðlæti. Þjóninn fræddi okkur og þá sem vildu um ræktunina og kynnti okkur fyrir nöfnum mínum býflugunum sem unnu eins og forkar á meðan við kjömsuðum á súpunni. Veðrið var frábært og haggaðist ekki hár á höfði. Síminn var nýttur óspart í myndatökur og ferðinni svo slúttað með viðkomu í sundi á Minni Borg. Betri dag hefðum við ekki getað óskað okkur. Það vantaði reyndar alveg ís með dýfu svo því var reddað í snarhasti þegar heim var komið. Passlega stór skammtur af ís, sletta af dökku súkkulaði og þörfinni var svalað. Allir sáttir eftir þessa fínu helgi.
Íspinni með dýfu
2 egg
2 msk Via health sæta m steviu
1 tsk vanilludropar eða 1/2 tsk vanilluduft
1/3 tsk xanthan gum (má sleppa, en gerir heilmikið)
2 dl rjómi ég notaði laktósafrían, þeytið
 
Þeytið egg, sætu og vanillu vel saman, bætið xanthan gum saman við ef þið eigið, það gerir ísinn þéttari og einhvernveginn "alvöru". Blandið þeytta rjómanum við eggin og hellið svo í form. Ég notaði frekar djúp silikonform sem ég gat nýtt sem íspinna.
Skerið nokkur sogrör í 2 parta og stingið ofan í ísinn. Frystið.

Dýfan:
50 g rapunzel 80% súkkulaði eða annað
sykurlaust súkkulaði
1 tsk kókosolía
10 dropar karamellustevía Via Health t.d.
 
Bræðið saman hráefninu og veltið íspinnunum hratt upp úr dýfunni. Frystið aftur eða njótið strax.
Svo má sáldra kókosmjöli eða hnetumulning yfir ef þið viljið extra bragð.
 

 No comments:

Post a Comment