Monday, September 15, 2014

Sunnudagskakan

Já er ekki bara ágætt að skíra þessa því nafni því ég hef prófað ansi margar útgáfur af súkkulaðitertum og bara nokkuð ánægð með þær flestar. Mig langaði hinsvegar að gera extra þykka og flotta tertu núna til að hafa sem eftirrétt fyrir okkur og foreldra mína og mixaði því saman nokkrum uppskriftum með ákveðnum tilfæringum. Hún lyfti sér mjög vel og hélst mjúk og góð og ótrúlegt en satt þá er hún ennþá mjúk og fín, s.s. smá eftir af henni :)  Kremið er útfærsla af tiramisúbollakökukreminu sem ég setti hér inn fyrir nokkrum mánuðum og er það bragðgott og fínt með rjóma sem aðal innihaldi. Það er samt gott að bera þessa fram með pínu extra rjóma :) Ég bauð nokkrum vinum sonar míns upp á afganga og þeir áttu nú erfitt með að trúa því að ekkert hveiti væri í kökunni , né sykur og fóru með súkkulaðiskegg upp í tölvuna, massasáttir !! Ég notaði Via Health strásætuna með stevíunni sem ég er kolfallin fyrir og mun prófa mig áfram með hana á næstunni. Kanilsykur t.d. úr henni er bara nákvæmlega eins og sá gamli góði.
Sunnudagskakan:

230 g möndlumjöl má nota gróft eða fínt
90 g kakó
160 g Via Health sæta með stevíu eða önnur sæta, ef Sukrin er notað þá má bæta við stevíu dropum ca 10-15 dropum
40 g vanilluprótín t.d. NOW eða Nectar
1 msk skyndikaffiduft
2 tsk lyftiduft
1 tsk matarsódi
1 tsk xanthan gum
1/2 tsk salt
180 g sýrður rjómi ( 1 dós)
5 egg
120 g mjúkt smjör
200 ml möndlumjólk
val: 2 tsk vanilludropar eða duft, eða aðrir kökudropar
 
Aðferð:
Þeytið saman sætuefni, sýðrum rjóma og smjöri. Blandið svo eggjum saman við og þeytið vel. Þurrefnin blandast saman í skál og er bætt út í eggjablönduna ásamt möndlumjólkinni.
Setjið deig í 2 form, ég nota yfirleitt hringlaga há silikonform.
Bakið í 180°C heitum ofni í 30 -35 mín eða þar til pinni kemur hreinn úr kökunni.
Kælið vel áður en kremið er sett á.

Krem:
160 g rjómaostur hreinn
120 g fínmöluð sæta, t.d. Via Health
1 tsk vanilludropar
20 dropar Via Health stevía
250 ml rjómi (má nota laktósafrían)
1 msk kakó
 
Krem:
Þeytið saman rjómaost, sukrin, stevíu og vanillu. Hellið rjómanum varlega saman við og hrærið hægt.
Þegar rjóminn er kominn út í þá setjið þið vélina á fullan kraft þar til toppar myndast í kreminu.
Setjið kremið fyrst á milli botnanna, setjið svo restina í sprautupoka með fallegum skrautstút og skreytið. Má gera ríflega af kreminu ef skreyta á með miklum rósum.

No comments:

Post a Comment