Thursday, October 2, 2014

Meistaramolar

Þá er október runninn upp, meistaramánuðurinn svokallaði. Það er réttnefni að mörgu leyti, t.d. á dóttir mín afmæli í október og hún er algjör meistari sem hjólar nú um í Kaupmannahöfn og sinnir sjúklingum af öllum stærðum og gerðum í heimaaðhlynningu, en það er partur af náminu hennar í hjúkrunarfræðinni :) Burtséð frá því reyndar þá er komin einhver áskoranahefð á þennan tíma fyrir á marga sem er gott og vel. Hvort sem fólk ætlar að breyta til í mataræðinu, auka hreyfinguna, minnka tölvunotkun, geyma símann heima, drekka meira vatn, læra að synda, hringja oftar í ömmu.. skiptir ekki öllu en mörgum finnst gott að hafa einhverskonar tímaramma í sínu lífi, eitt eða fleiri markmið, fjall til að klífa og því ekki að nota október í slíkt, það er sossum ekkert brjálæðislega merkilegt í gangi núna, hundleiðinlegt veður, flestir að spara fyrir jólainnkaupunum, Timberlake farinn heim og pínu lægðartímabil í kortunum að mínu mati allavega.

Ég persónulega hef nú reynt að hafa alla daga árið um kring meistaradaga, tel mig lifa nokkuð heilbrigðu lífi með hliðarsporum hér og þar svona í mataræðinu, en ég æfi skrokkinn meirihluta vikunnar svo í heildina er maður bara nokkuð góður. Ég ætla því ekki að setja mér einhver svaðaleg markmið núna, stefni aðallega á að ná úr mér flensunni sem herjað hefur á mig alla vikuna og fleyti mér áfram með kaffi og meistaramolum sem var bókstaflega "gutlað"saman í gær. Hendi hér inn uppskriftinni og ætti hún að koma sér vel fyrir alla sem hafa ákveðið t.d. að ryðja sykrinum úr lífi sínu, þó það sé ekki nema út október !!! Veit ekki hvað er með mig og hnetusmjör þessa dagana en þetta er uppáhalds núna. Þessir molar gætu verið afkvæmi, Bounty, Snickers og Mars !
Meistaramolar:
 
2 msk kókosolía
2 msk hnetusmjör(Solla eða Monki)
1 msk kakó
2 msk via health fínmöluð sæta (eða Sukrin Melis)
10 dr karamellustevía
2 dl salthnetur
2 dl möndlur
2 dl kókosflögur
1 tsk vanilludropar
 
Aðferð:
Hitið allt í potti á lágum hita, hrærið vel saman og deilið svo gumsinu í form.
Hægt að nota konfektform, silikonform eða smyrja þessu á plötu, frysta og skera svo í bita.
Ég fékk 36 stk úr þessari uppskrift og þeir munu duga lengi því það er tugga í þeim og því erfiðara að missa sig alveg.
Það mætti eflaust hakka hneturnar meira niður en mér fannst þetta fljótlegt og fínt svona, skemmtilega frjálslegir molar líka.

No comments:

Post a Comment