Monday, October 13, 2014

Villikettir og blómkálsbögglar

 
Í þessum nístingskulda þá er gott að fá sér heitt og gott millimál eða hádegismat sem gefur góða fyllingu. Hér er uppskrift af mjög góðum blómkálsbögglum sem passa bæði sem millimál, hádegismatur en einnig sem meðlæti.  


Blómkálsbögglar
 1/2 haus blómkál
 2 dl rifinn cheddar eða álíka sterkur ostur
 4 cm blaðlaukur
 2 egg
 3 sneiðar beikon ( hitað t.d. í örbylgju)
 40 g möndlur eða möndlumjöl ( mætti nota chia seed mjöl 20 g ef þið viljið sleppa möndlum )
 2 msk sýrður rjómi
 1/2 tsk pipar
 1/2 tsk salt
 1/2 tsk hvítlauksduft
 1/2 tsk hvítlauksmauk eða 1 geiri
 Mixið blómkálið og möndlur( mjöl) saman í matvinnsluvél, bætið rest út í og mixið áfram.
 Setjið í vel smurð muffinsform ( ég nota álform )
 Bakið í 25 mín á 200°C
 Mjög gott með mat eða sem hádegismatur með salati t.d.
 
En talandi um nístingskulda. Nú er fjölskyldan og heimilið undirlagt í litlum kisulingum sem fæddust úti í hrauninu okkar hjá villikattarmömmu sinni og erum við nú komin í samstarf með Villikattafélaginu sem heldur meðal annars úti síðu á facebook. Markmið félagsins er að koma villiköttum undir læknishendur í skoðun og geldingu svo hægt sé að stöðva útbreiðslu og offjölgun á köttum sem eru án húsaskjóls. Við erum yfir okkur hrifin af elju þessa fólks og dáumst af dugnaðinum en allt þeirra starf er unnið í þeirra persónulega tíma og félagið rekið af styrkjum. Mig langar að leggja mitt af mörkum og verðum við nú með sölu á jólakettinum frá KristuDesign fram að áramótum og mun helmingur ágóðans renna til félagsins. Svo er hægt að gerast félagsmeðlimur ef áhugi er fyrir því. Bendi á þessa frábæru síðu sem vinnur ansi þarft starf og nú sérstaklega í kuldanum. Hér á myndinni er ein lítil dama sem við tókum inn þar sem hún er mjög gælin og forvitin. Hún á 2 systkin sem kúra úti í hituðum kofa en framtíð þeirra er óljós. Fyrir 2 vikum eignaðist móðir þeirra 5 kettlinga í viðbót þar sem hún er ekki geld blessunin og höfum við tekið þau öll inn tímabundið þar til þau komast í fóstur. Hugsum vel um dýrin, látum gelda kisurnar okkar og merkja.

Kisinn kostar 1600.- er úr húðuðu áli og fæst hjá www.kristadesign.is
Hægt að hafa samband á kristadesign@internet.is
 
 
Eins og sjá má þá er litli kettlingurinn, sem við kölluðum fyrst Bratt en er líklega Brött, orðinn heimsfrægur á Akureyri allavega, en þar prýðir hann rafmagnskassann fyrir utan búðina okkar systra. Systur og Makar :) margur er knár þótt hann sé smár.
 
 
 
 
 
 

No comments:

Post a Comment