Sunday, November 9, 2014

Brauðstangir, Dominos hvað ?

Það er laugardagskvöld, steikin búin að setjast í mallanum og nánast komið að háttatíma. Bíómyndin hálfnuð og þá allt í einu bankar nartþörfin hjá frú Maríu Kristu. Hvað gera bændur, jú hendast inn í eldhús og snara fram brauðstöngum á mettíma. Örbylgjuofninn kemur sér vel í þessari uppskrift en eflaust er hægt að bræða ost í góðum potti á lágum hita ef fólk er algjörlega mótfallið örbylgjunotkun eða á ekki slíkan grip. Bakaraofninn er reyndar líka nauðsynlegur í þetta verkefni og eftir 15-20 mín mesta lagi voru 6 ómótstæðilega girnilegar brauðstangir með hvítlaukssmjöri og parmesan lentar á sófaborðinu. Ídýfan sem er algjörlega út í loftið var æðisleg með þessu og já kláraðist allt á mjög stuttum tíma. Skammarlega stuttum jafnvel. Hér er uppskriftin ef þið eruð í sömu hugleiðingum og ég. 
Brauðstangir:
1 egg
1 msk rjómi
2 msk kókoshveiti
140 g rifinn ostur
hvítlauksduft eftir smekk
1-2 msk parmesanduft úr bauk
 
Aðferð:
Hitið ostinn í öbbanum ( í skál )  í 30 - 60 sek eða þar til hann er fljótandi og ekki farinn að ofhitna.
Blandið öðru innihaldi saman við og hrærið rösklega svo allt blandist saman, gæti tekið nokkur kröftug handtök. Ofninn hitaður í 180°c og næst er klipið í deigið vænn skammtur og eins og ég gerði þá bara sneri ég upp á deigið og bjó til hálfgerðan snúning sem ég lagði svo á bökunarpappír. Endurtakið þar til ca 6 stangir eru mættar á plötu. Dreifið pínu parmesanosti yfir, nota bara úr bauk.
 
Bakið í ofni í ca 10 mín. Þegar stangirnar eru fagurgylltar þá eru þær klárar
EXTRA GOTT EF ÞIÐ NENNIÐ:
 
Hvítlaukssmjör
Á meðan stangir eru í ofninum er gott að bræða 2 msk smjör í  potti eða öbba, blanda 1/2 tsk af hvítlauksmauki saman við og um leið og stangirnar koma úr ofninum er smjörinu penslaði yfir.
 
Sósan:
Hunts pizzusósa væn sprauta 2-3 msk allavega
1 msk Franks hot chilli sauce ( KOSTUR) 
Ath að þetta er einungis minn smekkur, það er líka nóg að nota bara pizzusósuna.
 

No comments:

Post a Comment