Friday, November 7, 2014

Jólalykt í lofti

Ok ég viðurkenni það ég er orðin pínu spennt fyrir jólunum. Þótt ég hafi nánast engan tíma í eldhúsinu þessa dagana þá var hugsunin um nýbakaðar smákökur í þessum næðingi aðeins of góð hugmynd. Ég henti mér því inn í eldhús í morgunsárið og dúndraði í þessar, enda eru þær nánast eins og morgunmúslí í sparifötunum. Ilmurinn af kanel fyllti húsið og fyrsta tugga var eins og draumur, stökkar að utan, mjúkar og klístraðar að innan :) Hljómar vel ekki satt ? Þessar jólamúslíkökur eru þó með pínulitlu glútenfríu haframjöli og svipuðu magni af þurrkuðu trönuberjum svo þeir sem vilja telja hvert kolvetnisgramm og halda sér í ketósa ættu kannski ekki að byrja á þessum, því það er erfitt að hætta. En sykurlausar, glútenfríar og gerlausar eru þær og já dásamlega bragðgóðar. Jól í smækkaðri mynd takk. Þessar gætu hentað fullkomnlega í jólabrunchinn t.d.
Múslíjólasmákökur
 
40 g glútenlaust haframjöl t.d. Amisa
1/4 tsk xanthan gum
80 g Via Health strásæta með stevíu
50 g möndlumjöl ( tæpur dl )
2 msk kókosolía brædd
1/2 tsk vanilludropar
1/2 tsk kanell
1/2 tsk matarsódi
50 g trönuber (1 dl) brytjuð
60 g macadamiuhnetur (1 dl) brytjaðar
1/2 dl eggjahvíta úr brúsa (eða um 2 litlar eggjahvítur)
má nota 1 egg líka ef þið viljið mýkri kökur,
salt eftir smekk, ef hneturnar eru saltar þá þarf minna.
 
Aðferð:
Blandið þurrefnum saman í skál, bætið hnetum og berjum út í grófhökkuðum.
Því næst bræðið kókosolíu og blandið saman við deigið ásamt eggjahvítu.
Mótið lítlar "kúluhrúgur" og dreifið á smjörpappír, bakið í 160°C heitum ofni í 15 mín.
Takið kökurnar út og látið kólna og þá verða þær stökkar og fínar en samt með mjúkri miðju.
 No comments:

Post a Comment