Tuesday, November 4, 2014

Sjónvarpskaka og jólaöl


Nú er runninn upp tími afmæla á þessu heimili. Dóttirin var reyndar stödd í Kaupmannahöfn á sínum degi þann 20. okt en drengirnir okkar og við hjónin eigum öll afmæli í nóv og des. Strákarnir eru orðnir voða fullorðnir og biðja sossum ekki um stórar veislur en ég varð nú samt að henda í eina köku fyrir unglinginn í tilefni dagsins. Uppáhaldið hans er sjónvarpskaka svo gengið var í málið. Ég ákvað nú að hafa hana sykurlausa í þetta sinn þrátt fyrir að honum gæti ekki verið meira sama um þetta mataræði sem móðir hans aðhyllist. Sjáum til hvort hann finni mikinn mun blessaður.

Uppskriftin er í bókinni minni sem ég gaf út í fyrra en þó með örlitlum breytingum. Ég tek eftir því að eggin sem ég kaupi s.s. brúneggin eru í yfirstærð og því fækkaði ég fjöldanum í 3 egg hér og notaði Via Health sætuna með viðbættri stevíu í þetta sinn til að sæta kökuna. Er yfirmáta hrifin af þeirri vöru og get alveg mælt með henni og get því sleppt stevíudropunum á móti.

Nú kólnar kakan og ískalt jólaölið hefur verið tekið fram en það er líka í uppáhaldi hjá slánanum mínum. Hann var nú ekki alltaf svona langur og grannur blessaður, óttalegt bollukrútt fyrstu árin.
Til hamingju  með daginn Máni minn.


 
 


 
 
Sjónvarpskakan hans Mána
3 egg
80 g Strásæta Via Health með stevíu
1 dl sýrður rjómi
2 msk rjómi
40 g smjör
50 g kókoshveiti
2 tsk lyftiduft
1/2 tsk xanthan gum
1/4 tsk salt
1 tsk vanilludropar
1/2 tsk sítrónudropar (má sleppa)

Kókosbráðin:
25 g smjör
60 g Sukrin Gold eða Strásæta Via Health
3 msk rjómi
100 gr kókosmjöl gróft
 
Þeytið saman egg og sætu þar til eggin eru létt og ljós.
Bræðið í potti smjörið, kælið aðeins og bætið rjóma og sýrðum rjóma saman við. Sigtið þurrefnin út í eggjablönduna og hrærið varlega saman. Rjóma og smjörblandan fer næst út í og öllu blandað vel saman með sleif. Hellið í smurt form og bakið í 30 mín á 170 °C
 
Kókosbráð aðferð:
Hitið smjör og sukrin gold saman í potti og bætið næst kókosmjöli og rjóma saman við, passið að brenna ekki kókosmjölið.
Þegar kakan hefur verið um 20 mín í ofni má hellta eða dreifa kókosmjölinu yfir kökuna og baka áfram í 10 mín eða þar til pinni kemur hreinn úr kökunni.


No comments:

Post a Comment