Monday, November 10, 2014

Súkkulaðikaka og kókómjólk

Ég fór í afmæli hjá frændsystkinum mínum um helgina og eftir að hafa séð svo girnilega mynd af skúffuköku hjá dóttur minni á snappinu þá ákvað ég að búa mér til afsökun fyrir að ÞURFA að baka eina slíka sjálf. Þarf ekki að koma með eitthvað bakkelsi ?? spurði ég mágkonuna og er ekki bara fínt að það sé eitthvað sykurlaust  ?? Ég leitaði ekki lengi á netinu áður en ég fann eina girnilega uppskrift sem mæjónes leikur stóra rullu en mér finnst algjör snilld að nota það í bakstur, sem og rjómaost, það kemur eitthvað nýtt bragð af bakkelsinu :) Ég snaraði bollamælingum og amerísku hráefni yfir á íslensku, breytti pínu og kakan var klár eftir tæpan klukkara.  Get alveg mælt með þessari í barnaafmælið, bragðgott súkkulaðibragð og að sama skapi mjúk og góð.  Svo er nú ekki hægt að fá sér súkkulaðiköku án þess að fá sér mjólk með en þar sem ég er minna í mjólkinni ákvað ég að prófa að þynna bara rjóma og bragðbæta og úr varð þessi fína kókómjólk.Súkkulaðikaka:

100 g kókoshveiti ( ekki hægt að nota H-Berg)
70 g kakó
1 tsk matarsódi
1/2 tsk lyftiduft
1/4 tsk salt
200 g Via Health sæta með stevíu eða Sukrin Gold sem er mjög gott líka
6 egg
1 tsk vanilludropar
180 g Hellmanns mæjónes
280 ml vatn

Aðferð:
Þeytið egg og sætu saman í 3-5 mín , bætið mæjonesi við og þeytið áfram. Blandið þurrefnum saman í skál, bætið svo vatninu og þurrefnum til skiptis við eggjablönduna.
Smyrjið skúffukökuform og hellið deiginu í. Bakið á 170°C í 35 mín.

Glassúrkrem:
100 g fínmöluð Via Health sæta
50 g smjör eða kókosolía, brædd
1 tsk vanilludropar
2 msk kakó
1 dl rjómi eða möndlumjólk/ má líka nota uppáhellt kaffi
3-4 stevíudropar

Hræra vel saman eða nota töfrasprota, dreifa yfir volga kökuna og strá kókosmjöli yfir rétt áður en glassúrinn storknar

Súkkulaðimjólk:
1 tsk fínmöluð Via Health sæta
1 tsk kakó
2-3 msk rjómi, má nota laktósafrían
1 tsk súkkulaðisýróp Torani eða 6 dropar súkkulaðistevía
hálft glas klaki
vatn upp að brún

Aðferð:
Blandið kakói og sætu saman við rjómann og hrærið vel ( best að gera þetta all í blandara en ef hann er ekki til þá bara nota skeiðina) setjið svo klaka í glasið og vatn upp að brún, hrærið vel þar til kakóið er farið að leysast upp og svo bara svolgra þessu í sig.No comments:

Post a Comment