Monday, January 5, 2015

Játningar og kúlusúkk

Jæja nú er komið að hinni árlegu játningu eftir hátíðarnar... já ég fékk mér Nóa konfekt !! og já fleiri en einn mola !! En viti menn það varð ekki heimsendir og nýr dagur er sama og nýtt upphaf í mínum huga. Það ættu reyndar allir dagar að heita mánudagar því það er merkilegt hvað dagaheiti og hátíðir breyta hugsunarhættinum og geta afsakað hömlulaust át. En sitt sýnist hverjum og ég verð ekki með neinar predikanir hér nema þá helst gagnvart mér sjálfri því alveg sama hvaða dagur það er þá fer sykurinn ekkert betur í mig þótt hann heiti þriðjudagur eða laugardagur.  Við hjónin erum búin að ákveða að standa okkur vel núna og vonandi stöndumst við það enda eiginmaðurinn sýnu verri af ofnæmi fyrir blessuðum villikettlingnum sem við sáum aumur á og greinilegt að mataræðið hefur allt að segja í þeim efnum. En það er miklu auðveldara að taka út sykurinn en kveðja kisulinginn yndislega svo við byrjum á því :)
Hvað markmið varðar þá heyrði ég leikfimikennarann minn þylja upp nokkur góð í Warm fit tímanum í dag, (já sko mig, ég mætti í ræktina). Hún mælti með að hafa markmiðin einföld svo auðveldara væri að ná þeim, t.d. borða einn ávöxt á dag, hitta góðan vin í hverri viku, fara fyrr að sofa 2 kvöld og svo framvegis. Það er ekki of oft kveðin vísa að ef markmiðin eru óraunsæ, eins og að taka út alla óhollustu, hætta að reykja, drekka og byrja í crossfit í sömu vikunni þá er nokkuð víst að eitthvað gefi sig. Markmið geta líka verið óskyld mataræði og tölum á vigtinni, ein vinkona á fésbókinni sagðist stefna að því að hlæja og dansa meira á árinu og það fannst mér mjög skynsamlegt. Lífið er svo sorglega stutt og fjölskyldan okkar fékk áminningu um það þegar fyrrverandi skólabróðir 21 árs dóttur minnar varð bráðkvaddur í jólafríinu sínu og sendi ég þeim innilegar samúðarkveðjur. Nú er nýtt ár gengið í garð, fullt af tækifærum og skemmtilegum viðburðum framundan og vona ég að allir taki því fagnandi. Knús á línuna, ykkar María Krista.

P.S. ég læt fylgja með uppskrift af "Kúlusúkk" nammi sem ég blanda mér þegar ég finn að púkinn skríður upp bakið á mér.


 
Kúlusúkk
1 tsk lakkrísduft, fékk mitt í Epal
4 msk kókosolía
1 msk kakó
2 msk Via Health sæta, fínmöluð
10 dropa karamellustevía
 
Aðferð:
Hitið kókosolíuna í potti, bætið stevíu saman við og sigtið þurrefnin út í. Takið samt pottinn strax af hellunni áður en kakóið fer út í og hrærið vel. Hellið blönduni í konfektmót og frystið. Tilbúið á 15 mínútum :)

4 comments:

  1. Svolítið mikið af steviu, verður þetta þá ekkert of sætt eða beiskt? :)

    ReplyDelete
  2. Nei það finnst mér ekki , sætuefnið Via Health jafnar út beiska bragðið

    ReplyDelete
  3. Er hægt að nota eh annað sætuefni en Via

    ReplyDelete