Wednesday, January 14, 2015

Smápizzur í veisluna

Ég fór í afmælisboð um síðustu helgi hjá Tótu mágkonu og þar sem nánast allir eru dottnir í átak eftir jólin þá ákvað ég að koma með eitthvað af veitingum sem fólk gæti smakkað án þess að kafna úr samviskubiti. Það var ekki eins og það væri ekkert á boðstólum því systir mín og mágkona eru snillingar þegar kemur að veisluhöldum. En ég vildi samt prófa þetta og smápizzur urðu fyrir valinu. Þær hurfu eins og dögg fyrir sólu og ég mun pottþétt gera þessar aftur. Góðar með hvaða áleggi sem er og mjög fljótlegar. Hæfilega stórar líka, einskonar fingramatur sem gott er að halda á.
 
Smápizzur - tilvalið í partý og afmæli
 
3 msk beikonsmurostur
3 msk kotasæla
3 egg
3 msk HUSK
1 tsk lyftiduft
1-2 msk pizzukrydd eða oregano
saltklípa
3 msk möndlumjöl
1 msk kókoshveiti
 
Aðferð:
Maukið saman með töfrasprota og látið deigið í sprautupoka.
Leyfið deiginu að bíða í pokanum í 15 mín.
Hitið ofninn í 180°c með blæstri og klæðið 2 bökunarplötur með bökunarpappír.
Sprautið nú litlum hringjum (ca eins og sprittkerti í stærð) á pappírinn með góðu millibili og bakið í 10-12 mín.
Þegar botnarnir eru bakaðir þá má snúa þeim við og setja áleggið á. Bakið svo aftur í nokkrar mínútur þar til osturinn er orðinn gylltur og fínn.
Áleggshugmyndir, Hunts pizzusósa, chorizo sneið og rifinn ostur, pizzuskrydd.
Einnig gott að setja Hunts pizzusósu, skinkubita, og rifinn ost.1 comment:

  1. Sæl takk fyrir frábæra síðu!
    Er hægt að nota þessa uppskrift fyrir stærri pizzu?

    kv. Guðrún M

    ReplyDelete