Friday, February 20, 2015

Súkkulaðicado trufflur

Nú þegar páskahelgin nálgast óðfluga þá fyllast allar hillur verslana af girnilegu súkkulaði í öllum stærðum og gerðum. Ég fór meira að segja á fund í Nóa Siríus fyrr í vikunni og viðurkenni alveg að það var hættulega góð lykt í loftinu... og já ég fékk smakk með kaffinu. Þó allt sé gott í hófi þá   hentar sumum bara alls ekki að neyta sykursins í neinu hófi svo hér er útfærsla af trufflum sem eru svei mér þá "truflaðar" og komast alveg með tærnar langt fram yfir hælana á súkkulaðinu. Það tekur stuttan tíma að útbúa sjálft innihaldið en svo er smá dúllerí að rúlla þeim út og skreyta. En vel þess virði nota bene. Ég er persónulega mjög hrifin af sterku súkkulaði og pínu krydduðu svo ég notaði cayenne pipar í mínar trufflur, það má þó alveg sleppa því. Skemmtilegasta við þessar trufflur er þó aðalinnihaldið sem er avocado sem er svo mikil ofurfæða.  Endilega prófið þessar um helgina, til dæmis á konudaginn :)Súkklaðicado trufflur
Innihald:
1 avocado stórt eða 2 lítil
85 g kókosolía
30 g kakó
40 g Via Health fínmöluð sæta
5 dropar Via Health stevía
1 tsk vanilludropar
1/3 tsk cayenne pipar
 
Skraut:
malaðar pistasíur
malaðar möndlur
kakóduft
kókosmjöl
o.sfrv.
 
Aðferð:
Setjið innihaldið saman í matvinnsluvél, blandara eða notið töfrasprota.
Blandið öllu vel saman og setjið í kæli á meðan skrautið er undirbúið eða um 30 mín.
Takið nú tsk og skafið upp úr skálinni ca 1 tsk á trufflu, rúllið varlega milli handanna, gott að nota einnota hanska.
Veltið trufflunni upp úr skrauti að eigin vali og setjið á disk.
 Kælið trufflurnar og njótið ca klst síðar.No comments:

Post a Comment