Monday, March 16, 2015

Kókosjöklar sem slá í gegn

Jæja eftir rúma viku í veikindum hélt ég að allt væri á réttri leið, vann svo í búðinni okkar um helgina og svei mér þá ef kvefið er ekki eitthvað farið að böggast í mér aftur. Hef þó heitið mér að vera extra dugleg núna og sleppa öllu svindli, já hef aðeins laumast skamm skamm. Það er því ekki vitlaust að eiga svona "vopn" gegn sykurpúkanum í startholunum í ískápnum ef græðgin dettur í hús. "Kókosjökla" kalla ég þessa bita og eru meðal fjölmargra uppskrifta sem leynast í bókinni minni Brauð&eftirréttir Kristu. Ath. að ég á nokkur eintök eftir á litlar 2500 kr ,bæði hjá mér sem og í verslunum Systra og maka, Laugavegi 40 og Strandgötu 9 Akureyri, just saying :)
Í fréttum er það helst að ég og eiginmaðurinn lukum enn einu matreiðslunámskeiðinu í síðustu viku, nú á Hvolsvelli og það gleður mig endalaust hvað margir eru að halda sig frá sykrinum. Það styrkir okkur hjónin alltaf eftir þessi kvöld að halda okkur við þetta góða mataræði og nú er það bara operation speedo/bikini næst á dagskrá.
 
 
Ég breytti örlítið uppskriftinni frá því úr bókinni en notaði rjóma í þetta sinn og Via Health strásætu með blandaðri stevíu og kom það mjög vel út.
 
Kókosjöklar
 
80 g Via Health strásæta með stevíu
80 g kókosolía
80 g kókosmjólk, kókosrjómi eða venjulegur rjómi
200 g gróft kókosmjöl
 
Aðferð:
 
Hitið kókosolíuna og rjómann í potti, bætið sætunni saman við og hrærið vel. Blandið því næst kókosmjölinu saman við og hrærið aftur.
Ef blandan er of þurr þá má bæta við örlitlum rjóma eða kókosmjólk.
Þrýstið blöndunni í konfektform t.d. úr silikoni og frystið í klt.
 
Hitið svo sykurlaust súkkulaði (ég notaði Valor og það má endilega bragðbæta það með appelsínu, romm eða piparmyntudropum eftir smekk) yfir vatnsbaði og dýfið kókosjöklunum ofan í súkkulaðið.

Kælið á smjörpappír og njótið síðan með rjúkandi heitum kaffibolla.
Geymast best í frysti eða kæli.


No comments:

Post a Comment