Monday, March 23, 2015

Sykurlaust döðlugott á tvo vegu

Jæja þá er komið að enn einni játningunni... súkkulaðihúðað poppkorn er líklega höfuðsynd nr 8 í mínum bókum, svei mér þá. Saltað, stökkt og sætt allt í sömu lúku !! hvað er hægt að biðja um meira.. Jæja, kannski ekki beint það hollasta en ef maður gerir svona semiholla útgáfu með því að nota sætuefni og döðlur sem eru jú innihaldið í öðru uppáhalds "stelistínamminu" mínu "döðlugottinu hennar Kristbjargar vinkonu" þá er hægt að gera örlítið nettari útgáfu sem inniheldur ekki eins margar sprengjur, hvort hitaeiningalega séð né í súperháum sykurstuðli.. allt með smá tilfæringum. Ég skoðaði nokkrar uppskriftir af hinu týpíska döðlugotti og í þeim flestum voru allavega 250 g af döðlum. Mér fannst það heldur of há kolvetnatala því jú döðlur eru háar í kolvetnum svo ég ákvað að minnka magnið og nota Sukrin Gold á móti. Rice krispies er svo megin innihaldsefnið í þessum týpisku döðlugotterísbitum en ...naaa ekki alveg í boði, það eru svo mörg aukaefni í því og framandi sýrópstegundir sem maður þekkir ekki svo ég einsetti mér að nota eitthvað annað, hey popp !! því ekki. Loftpoppað popp hentar fullkomnlega, er það ekki nýjasta heilsuæðið, hollara en salat sagði einhver ;). Ég ákvað því að gera 2 útgáfur, eina með fitnesspoppi og aðra með möndlum og dálitlu glúteinlausu haframjöli . Þetta kom vel út og hélst saman og allt, þrátt fyrir þessar örfáu krúttlegu döðlur svo hér er komið mitt nýja uppáhald svona allavega fyrir laugardagskvöldin, sykurlaust og svona semihollt nasl :)  Hér eru uppskriftirnar af herlegheitunum, endilega prófið.
Döðlugott með poppkorni
Döðlugott með möndlum og haframjöli
Poppið malað í matvinnsluvél hér og blandað saman við maukið
 
 
Döðlugott með poppkorni:
 
1 poki fitnesspopp, þarf ekki að nota alveg allan pokann, má fá sér lúku
50 g smjör
100 g döðlur, niðurbrytjaðar (H- Berg selur þær tilbúnar í bitum)
1 kúfuð msk Sukrin Gold
 
Aðferð:
Hitið smjörið, sukrin gold og döðlurnar í stórum potti þar til þær fara að bubbla.
Gott er að mauka blönduna í pottinum með töfrasprota.
Malið  poppkornið gróflega niður og blandið öllu saman þar til poppið er orðið húðað í döðlumauki.
Þrýstið þessu í form og þjappið vel niður.
Bræðið súkkulaði yfir vatnsbaði eða í örbylgjuofni með 1 tsk af kókosolíu og hellið yfir, ég notaði dökkt Valor súkkulaði sem er hægt að fá sykurlaust.

Döðlugott með möndlum og haframjöli:
 
100g möndlur brytjaðar
1 dl glúteinlaust haframjöl ( má samt sleppa og bæta við macadamiuhnetum t.d. )
50 g smjör
100 g döðlur, niðurbrytjaðar (H- Berg selur þær tilbúnar í bitum)
1 kúfuð msk Sukrin Gold
 
Aðferð:
Hitið smjörið, Sukrin gold og döðlurnar í stórum potti þar til þær fara að bubbla.
Gott er að mauka blönduna í pottinum með töfrasprota.
Blandið möndlunum og haframjölinu saman þar til allt er orðið húðað.
Þrýstið þessu í form og þjappið vel niður.
Bræðið súkkulaði yfir vatnsbaði eða í örbylgjuofni með 1 tsk af kókosolíu og hellið yfir, ég notaði dökkt Valor súkkulaði sem er hægt að fá sykurlaust.


No comments:

Post a Comment