Ég sjálf

Hver er daman ?

Svona aðeins til að kynna mig betur, þá heiti ég María Krista Hreiðarsdóttir og er ég fædd á gamlársdag árið 1973 á Sólvangi í Hafnarfirði og því fullgildur Gaflari og líklega með þeim síðustu sem fæddust á hafnfirskri fæðingardeild. Hef ég alið manninn í hinum fagra firði alla mína tíð og ekkert á leið burt þótt ég sé staðsett ansi nálægt nágrönnum mínum í Garðabæ og Álftanesi þessa stundina.

Ég á 3 frábær börn sem eru á öllum aldri, eða 9, 13 og 19 og auk húsbóndans þá búa hér á bænum, 5 hænur, 3 villikettir og nýlega kvöddum við kanínuna "Birtu" okkar sem var að detta í 8 árin þegar hún skildi við fyrir skömmu.

Ég er stúdent frá Flensborg, menntaður grafískur hönnuður, iðntæknir (kallað vöruhönnun í dag) og starfa í dag sjálfstætt sem hönnuður á ýmsum sviðum. Rek eigið hönnunarfyrirtæki Krista Design.is og sinni heimili og áhugamálum eins vel og mögulegt er.

              
Líkaminn og heilsan :
Eftir að börnin fæddust hægðist eitthvað á brennslukerfinu hjá minni og aukakílóin tóku að skríða á skvísuna.  Eins og svo margir upplifa þá virtist ekkert gerast hjá mér og eftir eilífa megrunarkúra og "átök" "áramótaheit" og fleira þá gafst ég eiginlega bara upp. Var orðin allt of þung og löt og nennti varla að leika við krakkana mína. Hnén voru farin að gefa sig, mjaðmirnar stirðar og þegar eitthvað gaf sig endanlega í stoðkerfinu og ég þurfti að fá flutning með sjúkrabíl eitt kvöldið þá ákvað ég að snúa blaðinu við. Ég gat ekki hugsað mér að láta 2 fjallmyndarlega sjúkraflutningamenn drösla mér út í bíl svo ég þrjóskaðist við að hoppa á öðrum fæti niður tröppurnar og hlunkaðist sjálf upp á börurnar.

Þetta var stundin sem kveikti hjá mér ljós, ætlaði ég 31 árs kona (unglambið) að enda svona, feit og þreytt, lúin og pirruð í skrokknum?

Nei það var ekki að fara að gerast og í janúar 2005 skráði ég mig í enn eitt átakið. Það var hjá Vigtarráðgjöfunum sem voru að gera góða hluti hafði ég heyrt og ég vildi gefa þessu einn lokaséns.

Ég mætti á fund, neyddist til að horfast í augu við tölu á vigt sem ég kunni heldur betur ekki við og upphófst nú hið nýja líferni,  27 kg fuku með þessum breytta lífstíl og fjölskyldan þurfti að lifa með grasætu í 7 mánuði sem vigtaði allt sem fór á diskinn hennar, sleppti meira að segja páskaegginu það árið og öllu áfengi, en árangurinn lét ekki á sér standa og það var eins og ég hefði fengið aukakast, nýr leikur byrjaður og þú mátt byrja á byrjunarreit með fullt af tækifærum.

Að halda kílóunum frá varð næsta markmið. Það er sko ekki auðvelt skal ég segja ykkur, ég hafði fengið umfjöllun í Vikunni sem var nú orðin þekkt sem megrunar- og átaksblaðið!, og með umfjöllun fylgir umtal. Fylgst var með mér í búðinni og ég varð vör við að kíkt var ofan í körfuna mína í röðinni. En þetta kvatti mig bara áfram og ágætt að vera undir smásjánni, það hélt mér á tánum.

Á meðan kílóin fóru að tínast af, fór ég að huga aðeins að líkamsrækt, keypti mér 3 mánaða kort í lítilli stöð sem kallaðist Technosport í Hafnarfirði og faldi mig í risastórum jogginggalla á skíðabretti út í horni. Eftir nokkra mánuði var ég farin að mannast örlítið og ákvað að panta einkaþjálfun hjá Gunnari Má Sigfússyni, sem tók mig í gegn og kenndi mér loks að æfa!!

Þá var ekki aftur snúið, rúmu ári seinna skipti ég um stöð og ákvað að prófa líkamsræktarstöðina HRESS sem var samkeppnisaðilinn í Hafnarfirði, fyrir tíma WC, og sé ekki eftir þeirri ákvörðun. Það var bara eins og koma heim til sín að stíga þar inn og ég "bý" þar enn. Yngsti sonurinn átti það til að kalla það "vinnuna" mína að fara í leikfimina í HRESS ;)

Að kynnast skemmtilegu og kláru fólki er ómetanlegt og Telma Matthíasdóttir þjálfari ( að öðrum ólöstuðum ) var nákvæmlega sú rétta fyrir mig. Hún er bæði vinkona mín í dag og EINKAþjálfari vonandi til endaloka og það er ekki slæm lending skal ég segja ykkur. Með henni hef ég upplifað að missa of mörg kg, bæta þeim öllum á mig eftir sumarið, rífa þau af mér aftur og alltaf með brosi frá henni í farteskinu hef ég náð að taka næsta dag föstum tökum og halda mér á beinu brautinni, en það er endalaus vinna og það er bara nokkuð gaman í þeirri vinnu skal ég segja ykkur ;) Hún mun alltaf vera partur af mínum árangri og þakka ég henni fyrir.

Jæja, en svona að lokum og ef ég kem aðeins af tilurð þessa matarbloggs með meiru, þá hittumst við Gunnar Már á ný þegar ég ákvað að kynna mér LKL mataræðið sem hann hefur verið að kynna fyrir fólki upp á síðkastið. Upphaflega langaði mig að fræðast um glúteinlaust og hveitilaust fæði þar sem sonur minn er með hveitiofnæmi og dóttirin með óþol fyrir glúteini, svo afhverju ekki að prófa eitthvað nýtt, kannski hentaði það mömmunni ekki heldur að borða svona mikið af sterkju, en ég er algjör brauð og kexkelling.

Ég hitti Gunnar á stuttum en fróðlegum fundi og hann sýndi mér á blaði hvernig blóðsykurinn hagar sér og hvernig sykur og kolvetni með háan sykurstuðul geta gert allt vitlaust í kerfinu. Ég kannaðist nú alveg við einkennin og þá sérstaklega að geta ekki ekki stjórnað matarlystinni og þessari "nammiþörf" sem dettur í mann um helgar, (lesist frá hád föstd, og langt fram á sunnudagskvöld), en það situr enn púki í mér þrátt fyrir ég sé dugleg að mæta í ræktina.

Ég ákvað að slá til og leggja klípunni, fjörmjólkinni, hrískexinu, haframjölinu og "heilsuvörunum" sem ég hafði tileinkað mér og gera litla tilraun á mér fyrst og sjá hvort þessi fræði gæti virkað á týpu eins og mig. Mataræðið byggist upp á lágri kolvetnainntöku, próteini í meðallagi en fitumagnið er í meirihluta og fyrir mig var þetta nánast óyfirstíganlegt til að byrja með. Það nánast skalf á mér höndin þegar ég teygði mig í rjómapela á mánudegi og skutlaði beikonpakkanum í körfuna.

Nú rúmum 7 vikum síðar líður mér hinsvegar stórvel, búin að missa um 5 kg og finnst ég sjá betur árangur lyftinga og stífra æfinga 6-7 daga vikunnar. Það kannast kannski einhverjir við að æfa og æfa, taka svo sukkhelgi og byrja baráttuna aftur á mánudegi, enda fæ ég sjaldnast bílastæði í HRESS á mánudagsmorgnum en það er nóg plássið á föstudögum :)  hmmm

Nú borða ég hollan og góðan mat, grænmeti, kjöt og gott feitmeti og sjaldan liðið betur. Engar öfgar, skyndilausnir, bara bragðgóður matur og orkan er 100%. Ég er að digga þetta .....

Nokkrir meðlimir fjölskyldunnar urðu forvitnir og hafa fylgt mér í þessu sl vikur. Árangurinn hefur ekki látið á sér standa, svo það er margt verra en egg og smjör skal ég segja ykkur.  Lífið er skemmtilegt, rjómi er góður, endilega fylgist með mér hér ef þið hafið áhuga á góðum mat, eruð nautnabelgir eins og ég, en viljið samt líta sæmilega vel út og líða vel í eigin skinni.

Allar nánari upplýsingar og ráðgjöf er hægt að fá hér hjá Gunnari sem kann þessum fræðum enn betur skil og hefur jafnframt nýverið gefið út frábæra uppskriftabók sem er algjör perla. Svo kaupið þið ykkur kort í HRESS að sjálfsögðu og við hittumst þar sveitt og sæl.
Kv María Krista.

14 comments:

 1. Vá en flottur árangur:)

  ReplyDelete
 2. Spennandi - ég er einmitt aðdáandi LKL og ætla að kaupa bókina hans Gunnars. Ótrúlega ánægð með að hafa rambað inn á bloggið þitt.

  Takk takk. Kv. Ásta María

  ReplyDelete
  Replies
  1. Takk fyrir það, mæli eindregið með henni.

   Delete
 3. Snillingur !!! Bara búið að vera gaman að æfa með þér öll þessi ár í HRESS :)

  ReplyDelete
 4. ég elska síðuna þína :D hef ekki séð neina uppskirft sem ég má ekki borða (er með glútenofnæmi) elskidda :D

  ReplyDelete
 5. Frábært að lesa síðuna þína! Við könnumst við hvora aðra úr Firðinum. Ég er einmitt að gíra mig upp í annað hvort Danska kúrinn enn eina ferðina eða LKL. 4 mánuðir eftir barnsburð og slatti af aukakílóum virðast komin til að vera! Með hvorum kúrnum mælirðu ?

  Bestu kveðjur og takk fyrir að deila þessu með okkur hinum.
  Gyða Páls :-)

  ReplyDelete
 6. frábær síða hjá þér Krista, á eftir að kíkja oftar á hana.
  kveðja
  Sirrý

  ReplyDelete
 7. Þvílík snilldar síða hjá þér Krista :) Ég er búin að vera glútenlaus í rúmt ár og er akkurat að byrja að taka sykurinn út. Hef verið með mjög slæma liðagigt í 9 ár, sem hefur hjaðnað mjög mikið eftir að ég breytti um mataræði.
  Ég ætla að liggja yfir uppskriftunum þínum hérna inni og dást svo auðvitað að öllu öðru sem þú gerir.
  Þú ert svo mikill listamaður :)
  kv. Guðrún Árný

  ReplyDelete
 8. Get ekki annað en hrósað þér fyrir flottan árangur og FRÁBÆRAR matar uppskriftir svo ekki sé nú talað um fallega hönnun.
  Uppskiftirnar eru magnaðar og ég geri ekki annað en að prófa eitthvað nýtt og spennandi og kemur það flest frá þér :-)

  ReplyDelete
 9. Frábær síða, takk fyrir að deila :)

  ReplyDelete
 10. Takk fyrir gefur mér mikla von .
  og líka svo vel uppsett allt saman

  ReplyDelete
 11. Glæsilegur árangurinn hjá þér og frábær síða. Kíki alltaf við reglulega þegar mig vantar innblástur og spark í rassinn til að halda mér á beinu brautinni.

  ReplyDelete
 12. Sæl Krista ég hef komið til þín í Krista Design og þú ert að gera frábæra hluti. Ég elska að dekra við hár en mér finnst líka gaman að prófa hinar ýmsu uppskriftir í eldhúsinu. Í lokin langar mig að hrósa þér með árangurinn þinn og fyrir að vera með skemmtilega síðu. Ég á pottþétt eftir að prófa eitt og annað hérna.

  ReplyDelete